Undirbúningur fyrir breytingar | Svefnherbergi

Það er búið að vera á dagskránni að taka svefnherbergið okkar í gegn síðan við fluttum inn í íbúðina okkar, og það eru komin heil átta ár síðan! Svo loksins erum við byrjuð að plana og pæla og ég fór að sjálfssögðu í mikinn ham við að stílisera herbergið í huganum og leyfa mér að dreyma um alla þá fallegu hluti sem mig langaði að skreyta herbergið með og setti saman óskalistann minn hérna að neðan. Eitthvað af þessu á ég fyrir, eitthvað er ég að spá í að splæsa í fyrir nýja og fallega herbergið okkar og annað fær bara að eiga áfram heima á óstkalistanum.

Bedroom inspiration | Guðrún Vald.

1. Jielde lampi 2. Applicata ObjectBox 3. Lyngby vasi 4. Gubi spegill 5. Normann Copenhagen Block Table sem náttborð 6. Fallega plöntu á gólfið 7. Milk Lamp frá Norm Architects 8. Pappírs pokar undir óhreina þvottinn frá Le Sorelle 9. Motta frá Ferm Living.

En það er svo oft þannig að þegar maður fer útí framkvæmdir virðast þær vinda uppá sig og á endanum er þetta svona þrisvar sinnum meira verk en maður hafði fyrst áætlað. Planið var að mála yfir gólfið hjá okkur, en það var upprunalega mjög dökkt og illa farið parket á herbergisgólfunum sem við máluðum hvít fyrir einhverjum árum síðan, en málningin var farin að flagna hér og þar og þurfti smá yfirhalningu. Við ætluðum líka að fá okkur nýja fataskápa þar sem þeir gömlu voru orðnir lélegir en líka of litlir. En það sem pirraði mig eiginlega mest var að herbergið er ekkert sérstaklega stórt og skáparnir voru svartir sem minnkaði herbergið ennþá meira. Þessir svörtu fengu því að fjúka fyrir helgi og í ljós kom að það var ekki parket undir þeim heldur gat ofan í steypu! Það er því ekki möguleiki lengur að mála gólfið og það var því ekkert annað að gera en að fara á stúfana og finna nýtt gólfefni. Núna erum við með svo mikið af parket- og teppaprufum að við gætum næstum því bara þakið gólfið með prufunum. Spurningin er hvort við veljum það sem okkur finnst fallegast eða hvort við reynum að fá parket sem líkast því sem er á ganginum fyrir framan svefnherbergið og á restinni af íbúðinni. Svo erum við hjónin ekki alveg sammála með hvort við veljum teppi eða parket. Hvað finnst þér?

Floor inspiration | Guðrún Vald.

 

Tagged , , , ,

Við elskum uppímóti!

The Color Run hlaupið hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum á laugardaginn né allt litríka fólkið í miðbænum í kjölfarið. Ég hef aldrei áður tekið þátt í skipulögðu hlaupi en ákvað að skella mér í þetta þar sem það var engin tímataka og það var alveg samþykkt að vera með þótt maður hlypi ekki allan tímann. Ég hefði ekki trúað því hvað þetta var gaman og þetta voru raunverulega skemmtilegustu 5 kílómetrar lífs míns. Hlaupaleiðin var mjög fín og að mestu á jafnsléttu en það var ein brekka á leiðinni sem hægði ansi mikið á mannskapnum og akkúrat þegar ég var að gefast upp á hlauphraðanum og ætlaði að labba hlupu nokkrir strákar framúr okkur og hrópuðu yfir mannskapinn: “Komiði, við elskum uppímóti!” Þetta var svo óvænt og skemmtilegt að fólk hló og maður gaf aftur í.

Ég er búin að hugsa um þetta alla helgina að ef maður bara fagnar erfiðleikunum eða leiðindinum, tekur eitt gott fist-pump og gefur í kemst maður miklu lengra en maður hefði haldið og skemmtir sér á leiðinni. Ég skellti því í eina textamynd með appinu Boldomatic, sem er mjög skemmtilegt btw og þar getur maður sett inn hvers kyns texta á litaðan bakgrunn. Ég er að spá í að prenta myndina mína út og hafa einhversstaðar áberandi uppí á vegg til að minna mig á þessar hugleiðingar mínar.

The Color Run Iceland | Guðrún Vald.

Starfsafmæli og stólablæti

Fyrir nokkrum dögum átti ég víst 6 ára útskriftarafmæli frá vöruhönnunardeildinni í Listaháskólanum sem ég gleymdi að fagna. En í morgun ákvað ég að gefa mér, sem eina starfsmanninum í litla fyrirtækinu mínu, smá síðbúna starfsafmælisgjöf. Svona er ég góður yfirmaður! Mér fannst alveg kominn tími til, eftir 6 ár sem sjálfstætt starfandi vöruhönnuður, að ég fengi sæmilegan skrifborðsstól, en hingað til hef ég setið til skiptis á yfir 15 ára gömlum IKEA stól sem er meira að segja aðeins brotinn og einum af fallegu Eames DSR plast stólunum mínum. Hvorugur stóllinn er góður til að sitja í fyrir framan tölvuna allan daginn og hafa örugglega ekki haft nein sérstaklega góð áhrif á bakið mitt né bossann.

Hérna má sjá útskriftarverkefnið mitt, hillusystem sem má setja saman eftir því sem hentar hverjum og einum. Á þessum tíma var þetta ný og góð hugmynd en síðan þá hafa komið á markaðinn trilljón mismunandi svona hilllur sem notandinn getur einmitt aðlagað að sínum þörfum, sem er bara gott mál. Þarna má líka sjá Torfa, eldri strákinn minn kíkja í gegnum hillurnar, en hann er núna að verða 8 ára og orðinn talsvert stærri en á myndunum. Og síðast en ekki síst er þessi frábæra mynd af mér að útskýra verkefnið fyrir forsetanum okkar og rektor Listaháskólans, en það eru varla til betri myndir af neinu okkar!

Útskriftarsýning LHÍ 2009

En eftir mikla leit að rétta stólnum endaði ég s.s. á því að kaupa æðislegan skrifborðsstól frá Dauphin í Pennanum. Ég sit í honum núna og ég finn það strax hvað það er mikill munur að sitja í almennilegum stól!

Á meðan ég beið eftir að afgreiðslukonan næði í stólinn minn ráfaði ég um búðina og skoðaði, ég var hálfpartinn að vona að hún yrði voða lengi því það er svo margt fallegt að skoða þarna. En alltaf þegar ég kem í Pennan er það einn stóll sem kallar á mig og ég bara verð að setjast aðeins í hann. Það er Organic Chair sem var hannaður af Charles Eames og Eero Saarinen árið 1940. Hann var hins vegar ekki framleiddur fyrr en 1950 þar sem tæknin til að fjöldaframleiða bogadregnu skelina í sætinu var ekki til staðar fyrr en þá, sem sýnir hvað hönnunin á stólnum var langt á undan sinni samtíð.

Eames House Bird

Eames House Bird  | Guðrún Vald.

Ég er forfallinn aðdáandi Charles og Ray Eames og þótt Eames House Bird hafi alls ekki verið hannaður af þeim hjónum situr hann samt á toppi óskalistans míns.
Eames hjónin eignuðust upprunalega svona fugl á ferðum sínum um Appalachiafjöllin í Norður Ameríku og var hann eftir mann að nafni Charles Perdew. Perdew gerði upprunalega eintakið af þessum nú fræga fugli í kring um 1910 í allt öðrum tilgangi en til að vera til skrauts því hann skar út tálfugla fyrir veiðimenn.
Eames hjónin héldu víst mikið uppá fuglinn sinn var hann alltaf til sýnis á heimili þeirra. Hann varð fyrst frægur í kring um 1950 þegar Eames hjónin tóku hann af heimili sínu og skelltu honum með í myndatöku af DKR stólunum sínum sem birtist svo á forsíðu Architectural Review árið 1952. Og í kjölfarið sást glitta í hann á fjölmörgum myndum af vörum frá þeim án þess að vera nokkurn tímann til sölu.
Í samstarfi við Eames fjölskylduna gerði Vitra 3D skann af upprunalega fuglinum og hóf framleiðslu á eftirmyndinni sem er orðin ein af frægari Eames vörunum. Nýja týpan er reyndar úr elri, sem er tré af birkiætt, en ekki furu eins og sá upprunalegi, og lakkaður svartur.

Tagged ,

Inspired by Iceland og Hylur

Hafið þið séð nýju herferðina frá Inspired by Iceland? Þetta eru æðislegar auglýsingar þar sem nokkrir Guðmundar og Guðmundur bjóða fólki að spyrja sig spurninga á Facebook eða twitter um Ísland og Íslendinga og þau munu eftir bestu getu svara áhugaverðustu spurningunum. Þau eru s.s. fyrsta mannlega leitarvélin.

En ef einhverjir spyrja sig hvaða ótrúlega fallega skrifborð Guðmundarnir og Guðmundurnar sitja við, þá get ég alveg svarað því. Þetta er jú Hylur, skrifborðið mitt. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að fylgjast með borðinu í alls kyns aðstæðum eins og á þilfari skips, við tjörnina í Reykjavík, á fótboltavelli o.fl.

Ef þið viljið skoða öll myndböndin mæli ég með því að fara inná inspired.visiticeland.com en hérna að neðan eru tvö góð.

#AskGudmundur

For anyone not fluent in Icelandic and wants to know about the desk in the Inspired by Iceland campaign, it is called Hylur and was designed by myself. It is both Icelandic design and made in Iceland, of course it wouldn’t do to have a foreign desk in an ad for Iceland. ;) You can see more of the desk at: gudrunvald.com/hylur

Hylur desk by designer Gudrun Vald.

Tagged , , , , , , , ,

Nýtt ár, ný verkefni og gefins dagatal

Elsku vinir ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir síðustu árin hérna! 2014 var yndislegt og ótrúlega margt skemmtilegt sem gerðist bæði persónulega og í starfi. Ég fór til Parísar með manninum mínum þar sem við áttum yndislega daga saman í fallegustu borg heims, ég frumsýndi skrifborðið mitt Hyl á HönnunarMars, fór í æðislega ferð á sýningu í Þýskalandi ásamt þremur yndislegum íslenskum hönnuðum og eignaðist þar með góðar vinkonur og samstarfsaðila, fór í bestu utanlandsferð fyrr og síðar til Orlando með fjölskyldunni minni, systkinum mínum, mökum þeirra og börnum og síðast en ekki síst kom Hylur úr framleiðslu og fór í sölu í Epal stuttu fyrir jól.

Ég hlakka til að takast á við nýja árið og það er margt spennandi á dagskrá, fleiri vörur í undirbúningi, HönnunarMars á næsta leiti, ég er að fara á Stockholm Furniture Fair í næsta mánuði þar sem ég ætla bara að skoða og njóta og hitta mág minn, svilkonu og þeirra yndislegu dætur, ég mun fara með Þýskalands hópnum mínum á 100%Design í London að sýna saman vörurnar okkar, og svo er stórt verkefni í startholunum en ég mun segja betur frá því aðeins seinna.

2015 dagatal | Guðrún Vald.2015 dagatal | Guðrún Vald.

Í fyrra gaf ég út dagatal fyrir árið 2014 en því miður gekk ekki eftir að gera annað eins fyrir þetta ár en í staðinn ætla ég að gefa ykkur 2015 dagatal sem þið getið prentað sjálf. Smellið hérna til að ná í skjalið (búið að laga þær villur sem voru í upprunalega skjalinu).

Góða helgi!

Tagged ,

Gjafahugmyndir fyrir þessa erfiðu | Guðrún Vald.s blog

Eigum við ekki öll vini eða vandamenn sem eru erfiðari en aðrir að kaupa gjafir handa? Ég er allavega með nokkra svoleiðis karaktera á mínum gjafalista og því fannst mér tilvalið að henda inn nokkrum hugmyndum frá mér handa þessum sem eru eftir. :)

1. Akkeri hálsmen frá Orra Finn. 18.200-31.200 kr. Kraum. 2. KVRL Design Mýrarós plakat. 12.900 kr. Esja Dekor. 3. Vasi AGNES. Frá 3.850 kr. Epal. 4. Rif dagatal frá Hay eftir Snæfríði og Hildigunni. 4.990 kr. Hrím. 5. OYOY Mumi teppi chokobrown. 10.990 kr. Snúran. 6. Demantabox frá Areaware. 2.950 kr. Epal. 7. Tréstytta SVANUR. 13.500 kr. Epal. 8. Stelton ferðamál. 4.790 kr. Hrím. 9. Jielde lampi. Aurum. 10. Grey veggspjald – G. 8.900 kr. Mjólkurbúið.

Gjafahugmyndir fyrir eldhúsið | Guðrún Vald.s blog

1. Sparkbíll frá Vilac. 24.900 kr. I Am Happy. 2.BIBIB Trophy Björn. 12.990 kr. Mjólkurbúið. 3. Thermis Prism. 8.990 kr. Mjólkurbúið. 4. Willow herðatré frá Færið. 9.900 kr. Hrím. 5. Cubebot vélmenni. Frá 1.550 kr. Epal. 6. Lego geymsluhaus. Frá 2.500 kr. Epal. 7. Yellow Pear veggspjald. 4.900 kr. Petit. 8. Hoptimist. Frá 3.450 kr. Epal.

Keilir og Gígur: nýir litir

Það er búið að vera í undirbúningi hjá mér ansi lengi að koma með nýja liti á kertastjakana mína Keili og Gíg og nú eru þeir loksins tilbúnir. Við flóruna bættust við svartur, hvítur og tveir bláir tónar og ég er ótrúlega ánægð með útkomuna þótt ég segi sjálf frá.

Gígur tealigt holder by Guðrún Vald. Keilir candlestick by Guðrún Vald.

Kertastjakarnir eru allir úr gegnheilum mahóný við og málaðir í tíu mismunandi litum. Báðar týpurnar eru til í þremur stærðum, Gígur kemur í small (5,5cm), medium (7cm) og large (8,5cm) og Keilir sem er fyrir há kerti kemur líka í small (14cm), medium (17cm) og large (20cm). Litirnir sem eru í boði eru rauður, ljós appelsínugulur, bleikur, fjólublár, grænn, ljós grænn, blár, ljós blár, svartur og hvítur. Þeir fást m.a. í Hrím, Epal og Kraum.

Gígur tealight holder by Guðrún Vald.Keilir candlestick by Guðrún Vald.

Endilega tékkaðu á gjafaleiknum á facebook síðunni minni til að eiga möguleika á að vinna Keili í þínum uppáhalds lit. Tveir heppnir verða dregnir út þann 20. des.

%d bloggers like this: